27.4 Opið í verslun frá kl. 13-17

Sjoppan verður til

Sjoppan vöruhús opnaði formlega 1. janúar 2014. Eigendur eru Almar Alfreðsson og Heiða Björk Vilhjálmsdóttir. Sjoppan er sennilega eina og minnsta hönnunarsjoppan á Íslandi. Eigendum hafði dreymt um að bjóða fólki upp á fleiri vörur en þær sem þau framleiða undir merkinu ALMAR vöruhönnun en vegna plássleysis á vinnustofunni varð ekkert úr því. Þegar skipta þurfti um útihurð ákváðu þau að nýta tækifærið, láta útbúa lúgu á hurðina og opna litla verslun í anddyrinu. Þannig nýta þau plássið vel og fólk getur komið og keypt sér fallegar vörur gegnum lúguna.

 

Anddyrið er ekki stórt, ekki nema um 3,5fm en hugmyndirnar voru stórar. Hér átti að rísa lítil verslun sem seldi hönnunarvörur út um lúgu.

 

Fyrst var byrjað á því að skipta um útidyrahurð og koma fyrir fallegu stykki með þrefaldri læsingu, öryggisgleri og einni lúgu. Um verkið sáu L&S Verktakar Akureyri, toppmenn og vönduð vinnubrögð.

 

Fyrst um sinn ákváðum við að prófa okkur áfram og fá álit almennings á hugmyndinni um að hafa litla verslun í Listagilinu. Smá gjörningur var framkvæmdur á Akureyrarvöku sem vakti mikla athygli.

 

Þegar nafnið, lógó og útlit Sjoppunnar var tilbúið var STÍLL auglýsingastofa & skiltagerð fengið til að sjá um merkingarnar en lógó og útlit unnum við í samstarfi við Jón Ingiberg Jónsteinsson grafískan hönnuð. Virkilega hæfileikaríkur og fagmennskan uppmáluð.

 

Við vorum hörð á því að hafa ljósaskilti enda bara eitt slíkt fyrir í Listagilinu og það á sjálfu Listasafninu. Skiltið sem við völdum er smíðað hjá Merkingu ehf. og þolir mikið vindálag. L&S Verktakar Akureyri voru fengnir til að festa gripinn upp og eru alls 8 boltar sem halda því uppi en Siggi fagmaður fór létt með þetta og sló persónulegt met í uppsetningu.

 

Þar sem verslunin er lítil og sýningarglugginn mun minni kom sú hugmynd að hafa skjá sem sýnir skemmtilegar og lifandi myndir af vöruúrvali Sjoppunnar. Stálsmiðjan Útrás var fengin í það verk að hanna og smíða veggfestingu fyrir skjáinn sem tókst fullkomlega. Virkilega vönduð vinnubrögð og falleg smíði.

 

 

Innréttingar Sjoppunnar eru einfaldar og vel skipulagðar. Skápurinn kemur frá IKEA en Trésmiðjan Ölur sá um borðplötuna. Útrás Stálsmiðja var aftur fengin til vinnu en nú til að smíða grind sem hönnuð var af ALMAR vöruhönnun fyrir vörur Sjoppunnar.

 

Vandasamt verk var að festa grindina en hún þurfti að halda miklum þunga. Settur var upp falskur veggur með styrktarbitum og rörum fyrir rafmagni sem hélt uppi grindinni og faldi allar rafmagnssnúrur fyrir gömul kúluljós sem við keyptum í Góða hirðinum. Sjónvarpsfestingin, grindin og kúluljósin voru síðan pólýhúðuð hjá Pólýhúðun Akureyrar í hvítum lit. Fljót, góð og persónuleg þjónusta.

 

Lokaútkoman er falleg lítil hönnunarverslun á besta stað í bænum sem opnuð var formlega í byrjun ársins 2014. Sú eina sinnar tegundar á Íslandi sem afgreiðir út um lúgu.